Select Page

EYGLÓ HARÐARDÓTTIR – Í STÆRRA SAMHENGI

Eygló Harðardóttir hefur einstakt lag á að skapa rými á hreyfingu í verkum sínum – rými sem flæðir á milli yfirborðs og dýptar, léttleika og þyngdar, ljóss og myrkurs, dags og nætur. Litafletir þenja rýmið út með endurvarpi ljóss eða draga það inn í yfirborð sitt, sniðinn pappír blaktir, strokur streyma út fyrir fleti sína eða lokast inni, lag ofan á lag, og skapa þyngd sem hreyfir við í nálægð og fjarlægð.

Eygló vinnur efnið, pappírinn, litina og strokurnar þar til léttleiki skapast á ófyrirséðum tímapunkti – fullmótað verk er orðið til. Ferlið getur verið stutt eða langt, en streymir úr undirdjúpum líkamlegra skynjana og minninga jafnt sem frá björtum víddum andlegrar vitundar. Hringformið, tákn hins andlega sviðs, kemur fyrir aftur og aftur. Miðja þess er allstaðar og hvergi í alrými sínu. Andstæða hringsins er ferningur, tákn hins efnislega sviðs. Formin takast á í verkunum og vinna saman í flæði lita, leiks og næmni sem hreyfir við og snertir hið smáa og hið stóra í samhengi lífs og listar.
Léttilega sniðinn pappír er saumaður saman með litríkum spottum er eiga sinn tilgang í helgisiðum hindúa. Úr verða aflokuð bókverk sem geyma á síðum sínum duldar minningar um visku, skynjun lita og forma. Hringlaga sniðin af síðum bókverkanna blakta í lágmynd með pappírsörkum, hlöðnum sögu handverksþekkingar annars heims og vegsummerkja listamannsins í formi teikninga, stroka og lita. Verkin Í stærra samhengi I og II (2020) hreyfa við hárnákvæmri skynjun, næmni og innri sýn. Eygló sníðir bókverk sín og myndverk sem fara léttilega frá tvívíðu formi yfir í þrívítt, frá litlu formi sem liggur í hendi yfir í stórt sem kallar á hreyfingu alls líkamans í rými. Í bókverkinu Draumur I (2022) má greina snið sem ná varla hringformi en eitt sniðið fær að lifa í og með öðru á síðunum.

Bókverkið, Dagbók (2015–2021) hefur að geyma vatnslitamyndir sem unnar voru yfir hálfs mánaðar tímabil – persónulegar frásagnir úr undirdjúpunum – sem þurftu síðan að ganga í gegnum nokkurra ára umbreytingarferli, með því að vera klipptar til, límdar og bundnar saman þar til léttleika var náð þegar því var gefið grár bútur úr verkinu Minningar (2021). En teikningin Minningar er fremur þungur flötur sveipaður léttleika pappírsarka, litaflata, stroka og krots. Ljúfsárar minningar um tímaskeið lífsins – er læðast upp á yfirborðið. Ljósið flæðir í gegnum hárnákvæm göt á handunnum síðum bókverksins Viðmið – sjónræn dagbók (2020) þegar því er flett og leikur um litaðan hring jafn stóran og gatið sem er að finna innan um sjónræn minningarbrot listamannsins.
Ljósgeislar og litamerki eru vegvísar á hafi úti í niðamyrkri þar sem rými renna saman og verða eitt rétt eins og þegar bókverki er lokað. Þegar bókverkið Litamerki (2021) er opið með hringformum sínum, götum, litum og flötum, vísar það hring eftir hring inn í ljósið og eilífðina. Þrír hringfarar (2020) með litríkum síðum sínum, sem má snúa hring eftir hring skapa hleðslu og hreyfingu í rýminu sökum stærðar sinnar og áferðar. Þeir liggja ekki vel í hendi eða á milli fingra líkt og síður bókverks sem dvelja má með í nánd. Líkaminn allur verður að hreyfa sig á milli síðanna er hann les sjónrænt hreyfingu þeirra. Verkið hreyfist og hreyfir við. Í málverkinu Hleðsla – Draumur I (2022) er pappírinn grófur, hringirnir stórir, litirnir ákveðnir og strokurnar á við vindkviður í nóttinni.

Sólarljósið sveipar verkið sjónrænni margræðni og léttleika – andrými efnis og anda. Hárnákvæm viðkvæm pappírssnið í hringformum lágmyndanna Númer eitt – skapalón (2020) og Fjögur til sex – uppdráttur (2020) leiða inn í hið smáa og fínlega í stóra samhenginu. Umbreytingarferli efna, lita, forma, teikninga og stroka má skynja í stórum og smáum verkum Eyglóar, innri og ytri ferli, efnisleg og andleg. Þau nema staðar í fullmótuðum verkum á einu andartaki eða með einum andardrætti listamannsins, þegar ómælisdýptin og þyngdin verða sýnilegar á yfirborðinu sveipaðar léttleika og ljósi sem hreyfa við rými og snerta næmni og sjónræna líkamsskynjun viðtakanda í vetrarbirtunni.
Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir